"bara" Austurland að Glettingi!

Daglegt pár um lífið og tilveruna í firðinum fagra Fáskrúðsfirði.

Færslur: 2009 September

26.09.2009 20:22

Haust.

Það er komið laugardagskvöld, vikan leið á undra-hraða, konurnar frá Barnavendarstofu voru hinar ágætustu og ég held að heimsóknin hafi gengið mjög vel ;-) ég er búin að vinna bæði á Egilst. og Reyðarfirði þessa viku og það er nú bara gaman að fá smá tilbreitingu. Myndin hér að ofan er af íslukt sem maðurinn í lífi mínu bjó til handa mér í dag, snillingur! Bróðir-Súpermann veit sko hvað konuni finnst fallegt ;-) Við fórum í smá fjallgöngu og náðum okkur í mosa og lyng, ég, heimasætan og herra Tinni, það var yndislegt veður í dag í firðinum fagra en svolítið hvasst, góður þurrkur fyrir rúmfötin og svo er bara að klæða sig eftir árstíð. ég held ég hafi þetta ekki lengra, á morgun er saumadagur á Reyðarfirði og ég ætla sko að mæta, hafið það gott og verið góð hvert við annað, það eru nýjar myndir í myndaalbúminu merkt "lok sept."

K.kv.Anna á laugardagskvöldi :-)

23.09.2009 13:27

tíma skortur

Það er svo mikið að gera í augnablikinu að bloggið mætir afgangi, í gærkvöldi var fundur í skólanum og starf vetrarins kinnt, í kvöld er annar fundur vegna fjáröflunar 9.bekkjar vegna skólaferðalagsins. Á föstudagsmorguninn hafa starfsmenn frá barnaverndarstofu boðað komu sína í Mánaborg, það verður nú spennandi. Það var í fréttunum í gærkvöldi að aukning í barnaverndarmálum væri mikil, hús rúm og hjarta rúm er til staðar í álfabrekku 4. svo vonandi fer eitthvað að gerast. Hafið það sem allra allra best þangað til næst ;-)

K.kv.Anna önnumkafna :-)

20.09.2009 09:26

Sunnudagsmorgun..

Áhrif kerppunar á hinn almenna félagsmann.

Ég heiti Anna og er Ólafsdóttir,
ég er venjulegur félagsmaður og búðakona.

Geir H Haarde bað Guð að blessa landið okkar 6.október í fyrra, ég tel mig nú frekar trúaða, en ég efast um að þeir himnafeðgar geti bara nokkuð hjálpaða okkur.

Hvaða áhrif hefur kreppan á fólk eins og mig?
Ég er búin að vinna á Reyðarfirði í rúm 2.ár, að fylla Oktavíu af Dísel hefur hækkað, að kaupa í matinn hefur hækkað, að  líta sæmilega út þ.a.s. klipping og fatnaður hefur hækkað, ekkert af þessu eru nýjar fréttir fyrir ykkur, en launin hafa ekki haldið sama takti eiginlega verið úr öllum takti.
Getur verkalíðshreyfingin eitthvað gert?
Eða er AFL skrifstofa fyrir orlofsíbúðir og sumarhús?
Fyrir mér er AFL sameiningar tákn verkafólksins,
og þó svo að þeir sem við leggjum allt okkar traust á geti lítið gert í kjarabaráttunni í augnablikinu þá birtir til um síðir.
Við verðum að standa þétt saman, já snúa bökum saman og passa félagið okkar.
Kreppan er hér, það er ekki hægt að stinga hausnum í hauga af súráli og vonast til þess að þetta hafi bara verið vondur draumur, þeir sem stjórna landinu hafa ekki sýnt orð í verki, en hvað getum við gert? Litlu venjulegu félagsmennirnir sem svitnum í hverri viku yfir LÚXUSINUM sem það er að fylla kerruna í Krónuni og fara heim og raða í ísskápinn undrast yfir því að þetta smáræði hafi kostað hálf vikulaun verkamanns.

Það er lúxus að eiga íbúð á Manhattan, en á að vera lúxus að borða og fylla bílinn af eldsneiti? Ætli það verði til hveiti fyrir jólinn? eða verður eggjunum skammtað? Kanski það sé bara best að fá sér hænur og selja Kreppu-egg á svörtu, hvað eigum við að gera til þess að endar nái saman? Ná endar saman hjá þeim sem komu okkur í þessi vandræði, eða versla þau í Melabúðinni og borga með bros á vör.
Það er nú ekki það versta að lenda á "Hrauninu", þar er allavegana frítt að borða og það er nú meira en ég get sagt að sé hjá hinum almenna félagsmanni AFLs þessa dagana.

P.s. þetta var "ræðan" mín á kjaramálaráðstefnu AFLs í gær, vildi bara deila henni með ykkur ;-)

K.kv.Anna Jaki

17.09.2009 20:11

engin lognmolla!

Það er ótrúlegt hvað tíminn flígur!
Föstudagur að bresta á og september vel hálfnaður, á morgun verð ég í Birtu á Reyðarfirði allan daginn, svo er það undirbúningur fyrir brúðarvönd sem ég er búin að lofa fyrir laugardaginn (bara gaman!) Svo er það Kjaramálaráðstefna Afls og þar ætla ég að segja nokkur orð :-) Þannig að helgin á eftir að fljúga hjá. Takk fyrir skrifin við hugleiðingum mínum í síðustu færslu. Góða helgi elskurnar mínar ég kem með eitthvað krssandi eftir helgina ;-)

K.kv.Anna í góðum gír 

16.09.2009 12:59

Systir mín...

Þegar þú varst 3.ára og fjögura mánaða þá fæddist ég.
Þegar við stækkuðum þá leit ég upp til þín eins og litlar systur gera, þegar við urðum eldri þú unglingur og ég stór krakki þá varð mér ljóst að ég ætti ekki að hafa þig sem fyrirmynd, það var oft talað um á meðal hinna fullorðnu að þú værir erfið og pottarnir hafa eyru.
Um síðustu helgi þá var ég spurð á voða merkilegu námskeiði sem ég var á hver hefði haft mest áhrif á mig í lífi mínu og svarið var: systir mín. Að ég sé sú sem ég er, er fyrir það að ég horfði á allt það sem þú gerðir og var rangt, inná milli höfum við átt gott samband það hefur verið þegar þú hefur verið á góðum kafla í lífsbókinni þinni, það var langur síðasti góði kafli og ég var farin að trúa því að nú værir þú sloppinn, sloppinn úr höndum fíknarinnar, en þetta tak virðist vera eilíft og alltaf leinist hætta við næsta horn. Nú hef ég ekki heyrt í þér í margar vikur, ég veit ekki hvort þú býrð enn á sama stað og ekki ertu með sama símanúmer lengur. Það er vont að hugsa til þess að einhverstaðar ertu elsku systir mín og svífst einskins fyrir fíknina sem vann einusinni enn. Stundum verð ég svo þreytt á þessu en mest döpur, afhverju geturu ekki bara læknast, eins og að fara í kirtla töku já eða að fara í bakaðgerð. Nei að vera fíkill er lífstíðar sjúkdómur og þrotlaus vinna liggur að baki því að halda honum niðri. Ef þú ráfar inná síðuna mína þá vil ég að þú vitir að mér þykir óendanlega vænt um þig, það er bara svo slítandi að þykja það og væri eiginlega miklu auðveldara að vera allveg sama.
Kæru lesendur ekki leggjast í þunglindi yfir hugsunum mínum, ég varð bara að koma þessu frá mér.

K.kv.Anna litla systir

08.09.2009 13:19

Sami grautur í sömu skál!

Aha,ha,ha,ha! Þassi setning er eitt af því sem er ekki í orðabók Pollý-Önnu, ef lífið er tilbreitingarlaust þá er það í manns eigin höndum að gera eitthvað í því. Mér finnst hver dagur svo einstakur, reyndar kann ég vel við að hafa vissa hluti í föstum skorðum og þeir mega vera eins frá degi til dags og viku til viku, en restin af deginum er aldrei eins, hvað er eins? Það að festast í gömlu hjólfari og reyna ekki að koma sér uppúr því, þá vill maður bara hafa það þannig, ég er kanski í hjólfari en á góðum bíl kemst ég uppúr farinu og keyri aðeins utanvegar svona inná milli, já nú megið þið ekki misskilja mig, þetta er myndlíking, ég og Oktavía höldum okkur bara á veginum ef við mögulega getum!
Það sem gleymist svo oft í hversdagslegu amstri er að vera þakklátur, þakka fyrir góðan dag að kveldi og bjóða nýjan dag velkomin að morgni, ef þið hafið ekki lesið Pollý-Önnu þá mæli ég með bókinni.

Það var einusinni kona sem lenti á sjúkrhúsi allvarlega veik, það varð að taka af henni báðar fæturnar til þess að bjarga lífi hennar, þegar hún var komin úr lífshættu þá fengu börnin hennar að heimsækja hana og voru allveg miður sín yfir að mamma væri fótalaus, elskurnar mínar ég var nú heppinn að þeir byrjuðu á þessum enda! sagði mamman og var þakklát yfir því að geta faðmað börnin sín þó fótalaus væri.

Hafið það gott farið vel með ykkur og ekki gleyma að brosa, það kostar ekki neitt (ekki ennþá!)

K.kv.Anna í góðum gír ;-)

06.09.2009 21:11

Sunnudagskvöld

Þá er komið sunnudagskvöld, Engilfríður var saumuð í sumar og vendar forstofuna í Mánaborg, það eru komnar inn örfáar myndir, þetta gekk eitthvað brösulega hjá mér og bróðir-Súpermann, svo það kemur meira seinna. Helgin er búin að vera góð bara sauma, þvo þvott og slappa af, það er stutt vinnuvika framundan, á fimmtudaginn er ferini heitið í höfuðborgina, en ég á nú eftir að blogga áður en það skellur á ;-) Hafið það gott og takið á móti mánudeginum með opnum örmum.

K.kv.Anna og Engilfríður

03.09.2009 08:19

Stjórnleysi...

Ég les norsku dagblöðin nánast á hverjum degi, þökk sé netinu, í gær las ég að einhver fréttamaður hefði sett útá holdafar pólitíkusar og sagt að hún sýndi stjórnleysi með því að vera svona feit og ætti þess vegna ekki traust kjósenda! Vá! En þeir sem reykja? Munurinn á þeim sem borða of mikið og þeim sem reykja er sá að í sjónvarpsviðtali sést veikleiki þess sem ánetjast mat á meðan sá sem reykir eða jafnvel drekkur óhóflega mikið áfengi getur komið vel fyrir já í hátísku fötum með kvíttaðar tennur og strekt auglok, á meðan valið um föt er afmarkaðra hjá þeim þunga og ekki hægt að feika útlit sitt svona fyrir eitt sjónvarpsviðtal.

Ég borða of mikið, mér finnst sætindi og ostar alltof gott, en ég er engum vond á meðan á "neislu" minni stendur og ekki er ég hættuleg í umferðinni, nema ég missi NóaKropps pokann á gólfið í bílnum og fari að tína það upp á ferð! Það ríkir svipað skilningsleysi um ofþyngd í dag eins og í denn þegar alkahólistar voru bara aumingjar en ekki einstaklingar með allvarlegan erfiðan sjúkdóm. Ég er ekki að afsaka útlit mitt því allveg eins og hinir "fíklarnir" þá er þetta í mínum höndum, þess vegna er ég nú í 3.daga búin að borða hafragraut í morgunmat og fara út í góðan göngutúr með Tinna, í dag er veðrið svo fallegt að gönguferðin kl.07.00 í morgun var eins og happadrættisvinningur, ég hugsaði..... er hægt að biðja um meira? Öll þessi fegurð, hafragrautur og herra Tinni, ég er sátt!

K.kv.Anna á fimmtudagsmorgni ;-)

  • 1
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 39
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 1285046
Samtals gestir: 229244
Tölur uppfærðar: 17.10.2021 12:34:33

Eldra efni

Nafn:

"bara" Anna

Farsími:

í hleðslu!

Afmælisdagur:

29.mars

Heimilisfang:

Fjörðurinn fagri!

Heimasími:

á tali!

Um:

Hamingjusamlega gift bróðir Súpermann sem vinnur meira en flestir og þarf ótrúlega lítinn svefn, jákvæð, bjartsýn, með sterkar skoðanir, húsleg, hannyrðakona og fagurkeri.

Tenglar